*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 30. júlí 2021 09:10

Hótel­gistingar tvö­földuðust á milli ára

Gistinóttum á hótelum í júni fjölgaði mest á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjöldinn fór úr 18.600 í 74.200 á milli ára.

Ritstjórn
Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í júní fjórfölduðust á milli ára. Á myndinni má sjá Hilton Reykjavík Nordica.
Haraldur Guðjónsson

Greiddum gistinóttum á öllum tegundum gististaða í júní síðastliðnum fjölgaði um 64% milli ára. Þar af fjölgaði gistinóttum á hótelum um 108%, um 62% á gistiheimilum og um 37% á öðrum tegundum skráðra gististaða. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar.

Ef borið er saman við júní 2019, þ.e. áður en áhrif af Covid koma fram, þá hefur gistinóttum hins vegar fækkað um 57%. Þar af nemur fækkunin um 55% á hótelum, um 43% á gistiheimilum og um 45% á öðrum tegundum gististaða, en sá flokkur inniheldur meðal annars tjaldsvæði og orlofshús.

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 479.000 í júní en þær voru um 293.000 í sama mánuði árið áður. Íslenskar gistinætur voru um 46% gistinátta, eða um 223.000, en erlendar 54% eða 256.000.

Framboð hótelherbergja í júní jókst um 6% frá júní 2020. Herbergjanýting á hótelum var 40,3% og jókst um 19,5 prósentustig frá fyrra ári. Hótelgistingum fjölgaði á öllum landshlutum milli ára nema á Austurlandi þar sem hún dróst saman um 3%. Aukningin var mest á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinóttum voru fjórfalt fleiri, eða um 74.200 samanborið við 18.600 í fyrra.

Gistinætur á hótelum í júní voru 188.000 og jókst hótelgisting í mánuðinum í öllum landshlutum nema á Austurlandi, þar sem hún dróst saman um 3%. Mest var aukningin á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinætur fjórfölduðust, fóru úr 18.600 í 74.200 á milli ára.

Gistinætur Íslendinga voru 82.600, eða 44% af hótelgistinóttum, á meðan erlendar gistinætur voru 105.450 eða 56%. Erlendar gistinætur í júní sjöfölduðust milli ára meðan íslenskum gistinóttum fjölgaði um 10%.

Stikkorð: Gistinætur hótel