*

laugardagur, 14. desember 2019
Fólk 1. ágúst 2019 14:23

Hrannar Örn ráðinn fjármálastjóri HVest

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur ráðið Hrannar Örn Hrannarsson sem áður starfaði hjá N1 og Granda.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hrannar Örn Hrannarsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Hann starfaði síðast sem deildarstjóri áhættu- og fjárstýringar hjá N1 hf. og þar áður meðal annars sem fjárreiðustjóri hjá Granda hf.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða rekur sjúkrahúsin á Ísafirði og Patreksfirði, hjúkrunarheimili á Ísafirði, Þingeyri og Bolungarvík og sinnir heilsugæsluþjónustu í heilbrigðisumdæminu. Um 250 manns starfa í um 180 stöðugildum. Hrannar, sem er fæddur árið 1967, er með cand. oecon. próf í viðskiptafræði frá HÍ 1992 og MBA frá Háskólanum í Reykjavík 2017.

Átta sóttu um stöðuna sem auglýst var í upphafi sumars og voru viðtöl tekin við fjóra umsækjendur. Hrannar uppfyllir allar kröfur sem settar voru í auglýsingu og meira til. Hrannar hefur störf á næstu vikum og tekur við af Þóri Sveinssyni sem sest í helgan stein eftir langan feril hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum.

„Stofnunin er á mikilli uppleið, meðal annars hvað varðar innra starf og starfsanda. Hrannar mun sem fjármálastjóri og hluti af framkvæmdastjórn leika stórt hlutverk í áframhaldandi framþróun,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri. „Þóri Sveinssyni þakka ég fyrir samstarfið.“