HS Orka hf. hefur skrifað undir samstarfssamning við danska hátæknifyrirtækið Haldor Topsøe um byggingu tilraunastöðvar til að hreinsa brennisteinsvetni (H2S) úr gasstraumi sem fellur til við nýtingu jarðvarma í Svartsengi. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í dag.

Tilraunastöðin, sem verður sú fyrsta sinnar tegundar, byggir á nýrri tækni danska fyrirtækisins en aðferðin felur í sér hvatað efnahvarf. Um er að ræða umhverfisvænni lausn til þess að fjarlæga brennisteinsvetni úr gasstraumi jarðvarmavera, minnka lykt og samhliða framleiða hreinan koltvísýring (CO2).

Við nýtingu á jarðvarma fellur til nokkuð magn jarðhitagastegunda, s.s. koltvísýringur og brennisteinsvetni. Koltvísýringurinn er verðmæt afurð í ýmiskonar iðnað og framleiðslu. Aðferð Haldor Topsøe fjarlægir brennisteinsvetni úr gasinu svo eftir stendur hreinn koltvísýringsstraumur. Brennisteinsvetninu verður dælt aftur niður í jörðina í uppleystu formi. Tilraunastöðin mun hreinsa hluta af þeim gasstraumi sem fellur til við nýtinguna. Stefnt er að því að hefja rekstur tilraunastöðvarinnar snemma árs 2017.