Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur úthlutað heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni rúmum 100 milljónum króna til tækjakaupa. Þetta kemur fram á vef velferðarráðuneytisins .

Þar kemur fram að við fjárlagagerð ársins 2015 hafi verið ákveðið að auka tímabundið fjárveitingu til tækjakaup á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Aukningin hafi numið 100 milljónum króna og fénu hafi nú verið úthlutað að höfðu samráði við forstöðumenn viðkomandi stofnana. Þeir hafi gert ráðuneytinu grein fyrir þeim búnaði sem þeir teldu brýnast að kaupa, auk þess sem tillit var tekið til rekstrarumfangs viðkomandi stofnana.

Framlögin skiptast á milli stofnana á eftirfarandi hátt:

  • Heilbrigðisstofnun Vesturlands 18 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 10 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Norðurlands 20 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Austurlands 15 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Suðurlands 20 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Suðurnesja  18 m.kr.

„Ár frá ári er verið að auka framlög til mikilvægra verkefna á sviði heilbrigðismála og efla og styrkja þjónustu heilbrigðiskerfisins um all land,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.