Barry Stevenson hefur verið ráðinn forstjóri bresku garðvöruverslunarkeðjunnar Wyevale Garden Centres, en skoski auðkýfingurinn Sir Tom Hunter og Baugur gengu formlega frá 311 milljón punda kaupum á fyrirtækinu í gær, segir í frétt Financial Times.

Stevenson starfaði áður hjá bresku verslunarkeðjunni Marks & Spencer, byggingarvöruverslunarkeðjunni B&Q og verslunarkeðjunni Woolworhts.

Stevenson mun starfa með stjórnarformanninum Jim Hodkinson, sem einnig starfaði hjá B&Q, og sölu- og viðskiptastjóranum Andrew Livingstone.

Þríeykið mun kynna viðskiptaáætlun sína fyrir nýjum fjárfestum á föstudaginn, þar á meðal Hunter og Baugi, samkvæmt heimildum Financial Times.