Árið 2013 seldi Orkuveita Reykjavíkur höfuðstöðvar sínar við Bæjarháls til lífeyrissjóða eða Foss fasteignafélags fyrir 5,1 milljarð króna. Eins og komið hefur fram er vesturhús höfuðstöðvanna svo illa farið af rakaskemmdum að mjög ólíklegt er að það svari kostnaði að fara í viðgerðir á því. Verið er að skoða þann möguleika að rífa húsið.

Greint er eignasölunni í ársskýrslu Orkuveitunnar fyrir árið 2013. Þar segir að samhliða sölunni hafi verið „skrifað undir 20 ára leigusamning við Foss Fasteignafélag ehf. um allar fasteignir félagsins að Bæjarhálsi og Réttarhálsi. Í samningnum er ákvæði um kauprétt sem Orkuveitan getur nýtt sér eftir 10 og 20 ár. Leigugreiðsla fyrstu 10 árin eru 223,9 milljónir kr. á ári, verðtryggt. Ef kaupréttur er ekki nýttur að 10 árum liðnum eru lágmarksleigugreiðslur næstu 10 ár þar á eftir 290,2 milljónir kr. á ári, verðtryggt. Í leigugreiðslu er ekki innifalin neinn rekstrarkostnaður."

Samkvæmt þessu þá hefur Orkuveitan greitt Foss fasteignafélagi um einn milljarð í leigu frá því samningurinn var gerður. Í kaupsamningnum var jafnframt ákvæði um að Orkuveitan sæi um viðhald og viðgerðir á höfuðstöðvunum. Þessi samningur hefur verið harðlega gagnrýndur og þá á þeim nótum að í raun hafi Orkuveitan miklu frekar verið að taka lán en að selja húsið. Þeir sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við telja fordæmalaust að leigutaki beri ábyrgð á viðhaldi og viðgerðum á eign og þá sérstaklega ytra byrði húss.

Samkvæmt ársreikningi 2016 eru fimm stærstu eigendur Foss fasteignafélags: LSR (19,95%), Festa - lífeyrissjóður (19,46%), Lífeyrissjóður Vestmannaeyja (10,84%), Sameinaði lífeyrissjóðurinn (9,85%) og Birta lífeyrissjóður (6,65%). Fjórir aðrir lífeyrissjóðir eiga frá tæplega 4 til 6% hlut og þá á Gamma Iceland Fixed Income Fund 6,12% og Kvika banki hf. 5,45% hlut.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .