Seðlabankinn blmfundur fjárfestingaleiðin,
Seðlabankinn blmfundur fjárfestingaleiðin,
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Sett er út á aðferð sem Seðlabankinn notaði til að rökstyðja heimild til húsleitar og haldlagningar gagna hjá Samherja í mars síðastliðnum í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem birtur var 15. maí. Í úrskurðinum segir veikleika hafa verið í röksemdafærslu Seðlabankans við upphaf rannsóknarinnar og Seðlabankinn hafi ekki notað samanburðarhæfar tölur.

Sagði verðmun mikinn

Tölurnar sem dómarinn vísar í snúa að meðalverði á karfa sem Samherji seldi dótturfélögum sínum erlendis. Seðlabankinn hélt því fram, þegar hann óskaði eftir heimild til umfangsmikilla húsleita 27. mars, að Samherji hefði selt karfa til dótturfélaga á allt að 73% lægra verði en almennt var í viðskiptum með karfa síðustu mánuði 2011.

Grunur um lögbrot

Í ljósi þessa mikla verðmunar grunuðu starfsmenn gjaldeyriseftirlits Seðlabankann stjórnendur Samherja um að skilja hagnað af karfaviðskiptunum eftir í dótturfélögunum erlendis í stað þess að koma með gjaldeyrinn heim eins og lög um gjaldeyrismál kveða á um. Þetta var megin röksemdin fyrir húsleitinni þótt fleiri atriði hefðu líka verið týnd til.

Magn skipti máli

Seðlabankinn tók hins vegar í útreikningum sínum ekki tillit til magns í hverjum viðskiptum, sem skekkti niðurstöðna verulega og samanburðurinn var rangur að mati lögmanna Samherja. Dómarinn segir í úrskurðinum þetta orka „tvímælis í ljósi þess hvaða áhrif magn hefur á verðið.“ Tekur hann síðan undir rökstuðning í greinargerð lögmanna Samherja að önnur aðferð hefði gefið réttari mynd og samanburðarhæfar tölur.

Miðað við þá aðferð var mismunur á verði karfa, sem Samherji seldi dótturfélögum, og því sem almennt var á markaðnum aðeins rúmlega eitt prósent.

Viðskiptablaðið
Viðskiptablaðið
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Fjallað er ítarlega um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast nýjasta tölublaðið hér að ofan.