Nýjustu rannsóknir jarðvísindamanna sýna að aðkallandi sé að gera nýtt mat á jarðskjálftavá á Norðurlandi eftir því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Jarðskorpumælingar sýna að spenna í Húsavíkurmisgenginu sé til staðar fyrir skjálfta af stærðinni 6,8. Vegna þessa þarf að endurskoða staðsetningu kísilmálmverksmiðju við Húsavík og jafnvel færa sjúkrahúsið á staðnum, að mati Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Hópur jarðvísindamanna kom saman á Húsavík í byrjun mánaðar. Tilefni ráðstefnunnar var skjálftahrinurnar haustið 2012 og í vor, en þá bentu vísindamenn á að hugsanlega gæti virknin verið aðdragandi að stórum jarðskjálfta nær landi.

Að sögn Páls er virkasta sprungugreinin sem er kennd við Skjölbrekki í framhaldi af Húsavíkurfjalli út í sjó. „Þarna eru menn að hugsa um að reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka, á þessu misgengi. Það þarf að endurmeta jarðskjálftahættuna í sambandi við það. Annað dæmi er að menn ætla að fara í endurbætur á sjúkrahúsinu á Húsavík, og það er eins nálægt þessu misgengi og hægt er að hafa sjúkrahús. Í ljósi þess kemur alveg til greina að færa sjúkrahúsið hreinlega,“ segir Páll.