Stjórn Samtaka auglýsenda (SAU) lýsir áhyggjum sínum af því að
lausn offituvandamáls þjóðarinnar sé farin að snúast um það hvort leggja
eigi sérstakan skatt á sykur, sykraðar vörur og gosdrykki í staðinn fyrir að
snúast um markmið og leiðir sem vitað er að geta skilað árangri í
forvörnum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórnin hefur sent frá sér.

Þar kemur fram: "Í málflutningi Lýðheilsustöðvar virðist vera ruglað saman annars vegar orkuneyslu fólks (sem getur leitt til ofþyngdar) og hins vegar
samsetningu orkunnar (hollusta hennar). Minni neysla t.d. viðbætts
sykurs gæti því aukið hollustu en þarf ekki endilega að draga úr ofþyngd
eða offitu sem er vandamálið sem samt virðist eiga að leysa!
Flestir fræðimenn sem um offituvandamálið hafa fjallað eru þeirrar
skoðunar að enginn einn þáttur stuðli öðrum fremur að aukinni þyngd
fólks heldur sé um samspil margra ólíkra þátta að ræða. Skynsamlegast
er því að fara varlega þegar verið er að huga að aðgerðum því þær gætu
breytt vali fólks á vörumerkjum eða vöruflokkum og þannig skekkt
samkeppni án þess að breyta heildarorkuneyslu.

Þær leiðir sem taldar eru árangursríkastar í forvörnum eru almennar
aðgerðir eins og að fræða þá sem eru í áhættuhópum betur um kosti holls
og fjölbreytts mataræðis og hreyfingar og auka framboð af hvorutveggja.
Hvað fræðsluhlutann varðar er Lýðheilsustöð hvött til þess að eiga
samstarf við Samtök auglýsenda því félagar þeirra samtaka hafa öðrum
fremur reynslu og þekkingu á því hvernig hægt sé að hafa áhrif á viðhorf
og atferli fólks og hvernig fá eigi sem mest út úr samskiptum við stofur,
almannatengslafyrirtæki, birtingahús og fjölmiðla."