Fyrir helgina bárust fréttir af samkomulagi heilbrigðisráðherra við fulltrúa frumlyfjaframleiðanda innan Félags íslenska stórkaupmanna (FÍS) og fulltrúa Actavis hf. um lækkun lyfjaverðs. Samkvæmt samkomulaginu er stefnt að því að lyfjaverð í heildsölu á Íslandi verði innan tveggja ára sambærilegt við meðalverð á hinum Norðurlöndunum. Samkomulagið kveður á um að lyfjaverð frá Actavis lækki þann 1. október næstkomandi og er tekjulækkun vegna þessa áætluð 80 m.kr. á ársgrundvelli.

Í Morgunkorni Íslandsbanka eru vangaveltur um hvaða áhrif þetta hefur á verðþróun lyfja frá Actavis. "Fyrr á árinu hafði lyfjaverð frá Actavis lækkað og var tekjutap vegna þess áætlaður 60 m.kr. á ársgrundvelli. Heildaráhrif lyfjaverðslækkunar nema því 140 m.kr. á ársgrundvelli fyrir Actavis. Samkvæmt upplýsingum í uppgjöri Actavis fyrir annan ársfjórðung nam sala afurða félagsins á Íslandi um 3% af heildarsölu á fyrstu sex mánuðum ársins 2004. Áhrifin eru því minniháttar fyrir félagið," segir í Morgunkorninu.

Þar er ennfremur bent á að íslensk stjórnvöld eru ekki þau einu sem hafa verið að íhlutast um lyfjaverð. Í flestum löndum sem Actavis starfar á taka stjórnvöld mikinn þátt í lyfjakostnaði. Því hafa reglur stjórnvalda um t.d. val á lyfjum og verðlagningu mikil áhrif á starfsumhverfi Actavis á viðkomandi markaðssvæði. Fyrr á þessu ári áttu sér stað breytingar á verðlagsreglum í Tyrklandi og höfðu þær töluverð áhrif í för með sér. Breytingar á endurgreiðslukerfi í Búlgaríu eru enn í fullum gangi og er áætlað að þeim verði lokið undir lok þriðja ársfjórðungs.