Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.

Hvernig var árið? Ef litið er yfir þjóðfélagið í heild, þá er kyrrstaða það orð sem helst kemur upp í hugann og þar af leiðandi er hætt við að stóru málin 2013 verði þau sömu og 2012.  Hjá Advania var settur lokahnykkur á þriggja ára sameiningarlotu með nýju nafni og sameiningu 600 starfsmanna undir einu þaki við Guðrúnartún.

Hvað var vel gert? Markaðssókn landsins á erlendri grundu með tilheyrandi uppgangi hér heima í ferðaiðnaði og fjölgun ferðmanna. Sömuleiðis er góður taktur í menningarlífinu, samanber metaðsókn á hátíðir á borð við Hönnunarmars og Iceland Airwaves. Eins er eftirtektarverð gróska meðal sprotafyrirtækja og mörg fyrirtæki að gera góða hluti, til dæmis DataMarket og Meniga.

Hvað var slæmt? Ísland að vissu leyti fast í vítahring hás fjármagnskostnaðar, takmarkaðrar framleiðni og lítilla fjárfestinga. Þessi staða var ágætlega dregin saman í nýlegri skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey.  Við þessu ástandi hefði þurft að bregðast á því ári sem nú er að líða. Við þurfum traustari gjaldmiðil, hvetjandi umhverfi fyrir fjárfestingar og opnara hagkerfi, ásamt því sem gera þarf ýmsar úrbætur í menntakerfinu.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Við þurfum meiri einingu og þverpólitíska samstöðu um stóru málin í samfélaginu. Samstaða leiðir af sér stöðugleika. Stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök verða að snúa bökum saman og fram þarf að koma trúverðug, þverpólitísk áætlun um hvernig við sköpum hagsvöxt til framtíðar.  Slík langtímaáætlun sem ekki breyttist frá einum kosningum til annarra mynd ein og sér auka stöðuleika og efla samkeppnistöðu landsin. Við þurfum að geta sagt við umheiminn, kinnroðalaust og á trúverðugan hátt: Við erum með plan!