Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips spurningum Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið? Árið var ágætt miðað við aðstæður. Þegar horft var fram á veginn árið 2009 áttu flestir von á því að hlutirnir yrðu komnir á fullt skrið árið 2012. En viðsnúningurinn lætur standa á sér og við eigum sjálf mikinn þátt í því, þar sem tafir og ráðaleysi yfirvalda hefur torveldað okkur að komast út úr þessum öldudal. Hlutirnir eru ekki að gerast nógu markvisst og lítið bólar á framtíðarlausnum þannig að fyrirtæki og einstaklingar halda að sér höndum sem eðlilegt er.

Hvað var vel gert? Áhersla stjórnvalda á framtíð okkar á Norður Atlantshafinu er gott mál en við þurfum að fylgjast vel með þeim málum í nánustu framtíð og marka okkur stefnu í þeim verkefnum.  Ætlum við að vera þátttakendur eða áhorfendur? Annars eiga lögreglu- og tollayfirvöld mitt hrós. Þau hafa komið sterk inn varðandi upprætingu glæpa, sölu, ræktun og innflutning á eiturlyfjum og öðru sem miður fer í þjóðfélaginu en það þarf mikið meira til ef þessi barátta á að vinnast. Til að fyrirbyggja að ástandið verði svipað og það er í nágrannalöndum þarf að herða róðurinn enn frekar og setja fjármagn í málaflokkinn annars endar þetta með skelfingu.

Hvað var slæmt? Við erum að gera okkur lífið erfitt með því að ráðast ekki í arðsamar fjárfestingar til þess að koma efnahagslífinu af stað. Við lifum of mikið í fortíðinni og erum að horfa í baksýnisspegilinn í stað þess að horfa fram á veginn. Við þurfum að koma okkur saman um nýja framtíðarsýn sem markað getur veginn til árangurs. Pólitíkusar verða að fara að hugsa um hag almennings sem er orðinn þreyttur á úrræðaleysi og þeim deilum og dægurþrasi sem því fylgir. Þetta má glöggt sjá á áhugaleysi fólks á prófkjörum stjórnmálaflokkanna.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Ég vil sjá okkur vera jákvæðari í hugsun og samskiptum, skapa ný tækifæri fyrir land og þjóð,  alþingismenn okkar þurfa að vinna betur saman og marka nýja framtíðarsýn til 5 -10 ára. Við þurfum að setja arðsama fjárfestingu af stað og byggja upp atvinnustigið, vinna að málefnum fjölskyldna og fyrirtækjanna í landinu, koma á stöðugleika og vinna upp trúverðugleika gagnvart fjárfestum, losa um gjaldeyrishöftin með alvöru aðgerðum og stemma stigum við skattheimtu ríkisins og draga jafnframt úr ríkisbákninu.