Úrvalsvísitalan lækkaði um 5,8% í dag og stóð við lok markaða í 678 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Rétt er að hafa í huga að fyrst í morgun var opnað fyrir viðskipti með hlutabréf eftir þriggja daga lokun. Þegar markaðir lokuðu á miðvikudag stóð Úrvalsvísitalan í 3.005 stigum en þegar opnað var á ný í morgun stóð vísitalan í 720 stigum.

Í millitíðinni var í raun búið að núlla út Kaupþing, Glitni og Landsbankann eins og greint var frá í gær og hafði Úrvalsvísitalan því lækkað um 76% í millitíðinni.

Miðað við lokagildi Úrvalsvísitölunnar í dag og á miðvikudaginn s.l. hefur vísitalan lækkað um 77,4%.

Þá hefur hún ekki verið jafn lág frá því í apríl árið 2006 eða 12 ½ ár.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga. Bakkavör lækkaði talsvert í dag eða um 38,8% og hefur þar með lækkað um 89,8% frá áramótum.

Velta með hlutabréf var 197 milljónir. Þar af voru 47,5 milljónir með bréf í Össur og 44 milljónir með bréf í Marel.

Þá er velta fyrir um 6,8 milljónir með bréf í Bakkavör og um 6,2 milljónir með bréf í Icelandair Group.