Úrvalsvísitalan lækkaði í dag um 2,1% og stóð við lok markaða í 381 stigi samkvæmt Markaðsvaktinni.

Úrvalsvísitalan hefur því lækkað um 41,5% það sem af er þessari viku.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,5% gær og stóð við lok markaða í 389 stigum. Þá hélt hún áfram að lækka við opnun markaða í morgun.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga.

Exista hækkaði um 20% í dag en hefur engu að síður lækkað um 98,7% í þessari viku. Í fyrradag voru heimiluð viðskipti með félagið á ný í fyrsta sinn í rúma tvo mánuði, eða eftir að Fjármálaeftirlitið stöðvaði viðskipti með öll fjármálafyrirtæki í Kauphöllinni þann 6. Október s.l.

Þá hefur Exista lækkað um 99,7% frá áramótum, mest allra félaga í Kauphöllinni.

Heildarvelta með hlutabréf var í dag tæpar 260 milljónir króna en þar af voru rúmar 80 milljónir með bréf í Össur.

Þá var velta fyrir rúmar 76 milljónir króna með bréf í Marel og tæp 71 milljón króna með bréf í Straum.