Sigurður Viðarsson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM), gerir þátt stjórnvalda í fjárhagslegri skipulagningu Sjóvár-Almennra trygginga hf. (Sjóvá) að umtalsefni í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu 13. janúar sl. Vegna þessa vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi á framfæri.

Forstjóri TM segir m.a. efnislega í viðtali sínu að það hafði legið fyrir í rúmt ár að Sjóvá hafi í reynd verið gjaldþrota og langt frá því að uppfylla skilyrði um starfsemi vátryggingafélags. Af þessu tilefni skal áréttað að þegar vátryggingafélag uppfyllir ekki kröfur laga um lágmarksgjaldþol þá er félaginu gert kleift að grípa til aðgerða til að rétta við fjárhaginn, skv. ákvæðum laga um vátryggingastarfsemi. Skal áætlun lögð fyrir Fjármálaeftirlitið sem ákveður hvort þær ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru teljist fullnægjandi. Áætlunin skal ekki taka til skemmri tíma en næstu þriggja reikningsára og fela í sér tiltekin efnisatriði sem nefnd eru í lögunum.

Þegar vátryggingafélag er komið í þessa stöðu er það sett undir sértækt eftirlit, m.ö.o. aukið eftirlitið. Félaginu er m.a. gert að skila ítarlegum upplýsingum um eigin fjárhagsstöðu með reglubundnum hætti til Fjármálaeftirlitsins. Þegar félög eru sett undir sértækt eftirlit jafngildir það því ekki að þau séu orðin gjaldþrota. Fyrri hluta ársins 2008 hóf Fjármálaeftirlitið skoðun á fjárhagsstöðu Sjóvár Almennra trygginga og var félagið sett undir sértækt eftirlit í október sama ár.

Með því var verið að gera félaginu unnt að grípa til aðgerða til að rétta við eigin fjárhagsstöðu í samræmi við ákvæði áðurnefndra laga með því að afla nýs fjármagns. Forstjóri TM lýsir í viðtalinu afskiptum norska fjármálaeftirlitsins vegna ófullnægjandi gjaldþols hins norska dótturfélags TM, Nemi. Þar var Nemi gert kleift að grípa til aðgerða til að bæta fjárhagsstöðu sína rétt eins og gert var í tilviki Sjóvár þegar félagið uppfyllti ekki skilyrði laga um lágmarksgjaldþol.

Sigurður gagnrýnir einnig í viðtalinu að Fjármálaeftirlitið hafi ekki beitt sér gagnvart Sjóvá með þeim hætti að takmarka eða banna með öllu útgáfu nýrra vátryggingaskírteina á meðan félagið uppfyllti ekki lágmarksgjaldþol. Í þágildandi lögum um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994 var ekki að finna slíkar heimildir, en eftirlitið hefur heimild til að takmarka eða banna ráðstöfun vátryggingafélags á fjármunum og eignum sínum sé það liður í aðgerðum til að koma fjárhag þess á réttan kjöl. Fjármálaeftirlitið gat ekki lögum samkvæmt takmarkað starfsemi Sjóvár á þann hátt sem lýst er í viðtalinu.

Í nýjum lögum um vátryggingastarfsemi nr. 56/2010, er tóku gildi í júní á sl. ári, er hins vegar að finna slíkar heimildir. Á grundvelli hinna breyttu laga getur Fjármálaeftirlitið nú takmarkað og bannað útgáfu nýrra vátryggingaskírteina sem og takmarkað ráðstöfun fjármuna og eigna vátryggingafélags, sem ekki uppfyllir kröfur laga um lágmarksgjaldþol.

Í áðurnefndu viðtali kemur ennfremur fram að ítrekað hafi verið bent á að aðgerðir hins opinbera vegna endurreisnar Sjóvár hafi verið óþarfar. Forstjóri TM segir m.a. að tvö vátryggingafélög hafi haft burði til þess að taka yfir vátryggingastofn Sjóvár. Vegna þessara ummæla vill Fjármálaeftirlitið láta þess getið að vátryggingafélög sem starfa á íslenskum markaði lýstu ekki með formlegum hætti áhuga á að taka yfir vátryggingastofn Sjóvár. Hafa ber og hugfast að enginn samkeppnisaðila Sjóvár á vátryggingamarkaði hér á landi sýndi fram á að hann hefði fjárhagslega burði til þess að taka yfir vátryggingastofna Sjóvár á þessum tíma. Þess má og geta að ef vátryggingastofni Sjóvár hefði verið skipt á milli umræddra félaga má gera ráð fyrir að afleiðing þess hefði orðið sú að þau hefðu skipt á milli sín um 90% af íslenskum vátryggingamarkaði. Slíkt hefði að öllum líkindum komið til kasta samkeppnisyfirvalda.

Aðgerðir beindust að því að gæta hagsmuna neytenda og voru þeir taldir vera best tryggðir með þeim aðgerðum sem gripið var til.