Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í vikunni sem nú er á enda eða um 3,7%. Engin viðskipti hafa þó verið með hlutabréf í gær og í dag.

Við lok markaða s.l. föstudag stóð vísitalan í 3.3123 stigum en stóð við lok markaða á miðvikudag í 3.005 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni.

Ekkert félag hækkaði í vikunni en Eimskipafélag Íslands leiddi þó lækkanir þar sem félagið lækkaði um 61,6%. Félagið hefur þannig lækkað um 95,7% frá áramótum. Ekkert félag hefur hækkað frá áramótum.

Þá lækkaði Bakkavör um 43,7% í vikunni og hefur lækkað um 83,3% frá áramótum.

Úrvalsvísitalan undir 3.000 stig í vikunni

Á miðvikudag fór Úrvalsvísitalan um tíma niður fyrir 3.000 stig í fyrsta sinn  frá því í júlí árið 2004 eða rúma 50 mánuði. Lægst fór um í 2.989 stig en hækkaði þó upp í 3.005 stig fyrir lokun.

Þann 9. júlí 2004 var gildi Úrvalsvísitölunnar við lok markaða2.989,1 stig en næsta viðskiptadag á eftir, þann 12.júlí var gildi hennar 3.001 stig við lok markaða en síðan þá hefur hún ekki farið niður fyrir 3.000 stig fyrr en nú.

Velta dregst saman um 97% milli vikna

Á mánudag voru viðskipti með íslensk fjármálafélög stöðvuð af Fjármálaeftirlitinu og hafa ekki enn verið leyfð.

Velta með hlutabréf er iðulega mest í fjármálafyrirtækjum þannig að eins og gefur að skilja var svo að segja lítil sem engin velta þá þrjá daga sem opið var í Kauphöllinni í vikunni.

Veltan var um 2,3 milljarðar króna samkvæmt Markaðsvakt Mentis en var í vikunni á undan 77,2 milljarðar.

Mest var veltan með bréf í Össur eða tæpar 725 milljónir króna.

Þá var velta fyrir um 540 milljónir króna með bréf í Marel, um 340 milljónir með bréf í Bakkavör, rúmar 155 milljónir í Exista (viðskiptin fóru fram snemma á mánudagsmorgun) og um 150 milljónir með bréf í Alfesca.