Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 350,7 stig í janúar sl. og lækkaði um 0,3% á milli mánaða samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands.

Þetta er í fyrsta sinn í fimm mánuði sem vísitalan lækkar á milli mánaða en vísitala íbúðaverðs hefur nú hækkað um 5,3% á milli ára að nafnvirði. Frá því í apríl í fyrra hefur vísitalan aðeins lækkað einu sinni áður eða í ágúst sl.

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun vísitölu íbúðaverðs síðastliðin fimm ár. Eins og sjá má er vísitalan í svipuðum hæðum og hún var sumarið 2008. Síðan þá hefur hún að vísu tekið mikla dýfu niður á við og fór lægst í lok árs 2009. Frá því að íbúðaverð náði hámarki, í janúar 2008, hefur vísitala íbúðaverðs lækkað um 1,9% á föstu verðlagi. Mest lækkaði hún um 15,5% að raunvirði frá hámarkinu en það var í desember 2009. Síðan þá hefur íbúðaverð hækkað um 15,9%. Eins og sést á myndinni hefur íbúðaverð hækkað nær látlaust frá byrjun árs 2011.

Hafa ber hins vegar í huga að um nafnverð á fasteignaverði er að ræða, en ekki raunverð. Uppsöfnuð verðbólga frá árinu 2008 nemur í kringum 40% og er raunverð fasteigna því nokkuð langt frá því að vera búið að ná þeim hæðum sem það náði fyrir hrun.

Síðastliðna 3 mánuði hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 0,5% en síðastliðna 6 mánuði hefur hún hækkað um 1,9%. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 9 flokka íbúðarhúsnæðis. Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 24 mánuði.