Úrskurðarnefnd Neytendastofu hefur vísað frá kæru Express ferða, ferðaskrifstofu Iceland Express, en áður hafði Neytendaskrifstofa komist að þeirri niðurstöðu að ferðaskrifstofunni sé skylt að endurgreiða þriggja daga alferð sem féll niður vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Neytandinn fór fram á endurgreiðslu ferðarinnar. Hann fékk þau svör frá starfsmanni Express ferða að það væri álit lögfræðinga félagsins að endurgreiðslan heyrði undir 10. gr. laga um alferðir og að farþegar eigi ekki rétt á skaðabótum ef ferð er felld niður vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Kröfu neytandans um endurgreiðslu ferðarinnar var því hafnað en honum boðin endurgreiðsla flugs eða sambærileg ferð gegn milligreiðslu 25.000 kr.

Þetta kemur fram í ákvörðun Neytendastofu. Mat Iceland Express var að fyrirtækið sé laust undan ábyrgð og kröfu um endurgreiðslu því hafnað. Að mati Neytendastofu byggist túlkun fyrirtækisins, á 9. og 10. grein laga um alferðir, á misskilningi. Niðurstaða Neytendastofu er sú að farkaupi eigi rétt á fullri endurgreiðslu eða sambærilegri alferð ef ferð er aflýst.

Express ferðir kærðu ákvörðun Neytendastofu og kröfðust þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Neytendastofa taldi að vísa ætti kæru Express ferða frá vegna þess að hún hafi borist of seint.. Áfrýjunarnefnd Neytendastofu féllst á það og kærunni var því vísað frá.

Úrskurður áfrýjunarnefndar .