Íslenska flugfélagið Iceland Express er í áttunda sæti yfir verstu upplifun farþega þegar flogið er á almennu farrými samkvæmt úttekt Skytrax og Business Insider Australia. Hún er byggð á umsögnum farþega og gæðaskoðunum Skytrax. Listinn er byggður á tölum frá síðasta ári en Iceland Express var tekið yfir af Wow Air síðla árs í fyrra.

Versta flugfélagið samkvæmt þessari úttekt er Turkmenistan Airlines, sem fékk einkunnina 30,8 af 100 mögulegum. Í næstu sætum þar á eftir koma Sudan Airways með 33,3 og Ukraine International Airlines með 36,3. Einkunn Iceland Express í úttektinni var 42,8.

Þægindi sæta, gæði matar, afþreying í flugvélinni, hreinlæti og gæði þjónustu voru meðal þess sem tekið var með í reikninginn. Í umsögninni um Iceland Express eru matur, viðvera flugþjóna í farrými og aðstoð við það að ganga um borð í vélina sérstaklega nefnd.