Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir forsvarsmenn fyrirtækisins afar ósátta við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í núverandi mynd og að þeir séu reiðubúnir til samstarfs við Icelandair um byggingu nýrrar stöðvar.

Icelandair Group hefur látið gera hagkvæmnisathugun við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og liggur þegar fyrir frumhönnun slíkrar stöðvar hvað varðar útlit og ýmsa aðra þætti, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Aðspurður kvaðst Gunnlaugur M. Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair Group, geta staðfest að félagið hefði látið reikna út kostnað við nýja flugstöð en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið að sinni.

„ Við erum tilbúnir að skoða samstarf við hvern sem er  um að byggja nýja stöð,"  segir Matthías í samtali við Viðskiptablaðið. "Við höfum ekki verið í sambandi við Icelandair en heyrt af þessum hugmyndum og óformlega gefið í skyn að við værum tilbúnir að koma að þessu með þeim.  Ég hef enga trú að menn leggist gegn okkur, en ef þeir geri það þurfum við að skoða í alvöru að byggja nýjan flugvöll."

Ósáttur við flugstöðina

„Ég er alveg gríðarlega ósáttur við þessa flugstöð og væri tilbúinn í að skoða alla möguleika varðandi þátttöku í byggingu nýrrar stöðvar," segir Matthías. "Hún gengur líka upp á viðskiptalegum forsendum og það væri hægt að hanna hana miklu betur en FLE er hönnuð, ásamt því að hafa ýmsan rekstur sem skilar tekjum, og hafa lægri gjöld en við þurfum nú að greiða. Þetta er óheyrileg gjöld og öll gjöld sem lenda á okkur lenda auðvitað á farþegum að lokum, öryggisgjöld, innritunargjöld, lendingargjöld, aðstöðugjald o.fl. Það sem við greiðum hér er tvöfalt til þrefalt dýrara en það sem við greiðum í Kaupmannahöfn eða London, að því viðbættu að farþegarnir komast ekki út úr stöðinni nema komast í gegnum alls kyns kaffihús og verslanir.Þetta er dýrasta flugstöð í Evrópu og þó víðar væri leitað og forsvarsmenn hennar eru afar ósveigjanlegir í öllum viðskiptum við okkur,” segir Matthías.

Herma heimildir Viðskiptablaðsins að áætlaður kostnaður við flugstöðina nemi 15-20 milljörðum króna og er þá m.a. meðtaldar landgöngubrýr, bílastæði og aðrir þjónustuþættir.