Farþegum Icelandair fjölgaði umtalsvert í maí frá aprílmánuði og voru þeir um áttfalt fleiri en í maí 2021. Heildarfjöldi farþega í maí var um 316 þúsund, samanborið við 40 þúsund í maí 2021 og 242 þúsund í apríl síðastliðnum. Heildarframboð í maí var um 75% af framboði sama mánaðar árið 2019. Sætanýting í millilandaflugi var 74% samanborið við 76% í apríl. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir maímánuð sem birtar voru í Kauphöll rétt í þessu.

Fram kemur að flugfélagið hafi bætt átta áfangastöðum við leiðakerfið í síðasta mánuði og aukið tíðni til fjölda áfangastaða. Þá hóf félagið einnig flug í svokölluðum seinni tengibanka sem eru flug síðla morguns til Evrópu og um kvöld til Norður-Ameríku.

Farþegar í millilandaflugi voru 291 þúsund, þar af voru farþegar til Íslands um 116 þúsund og frá Íslandi 51 þúsund. Tengifarþegar voru um 124 þúsund eða um 43% millilandafarþega, samanborið við 8% í maí 2021.

Farþegar í innanlandsflugi voru um 26 þúsund samanborið við 18 þúsund í maí 2021. Sætanýting í innanlandsflugi var 80%, samanborið við 72% í fyrra. „Mikil eftirspurn er eftir innanlandsflugi og fjöldi farþega það sem af er ári var svipaður og hann var á sama tímabili árið 2019.“

Minna af leiguflugi og fraktflutningum

Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 12% samanborið við maí 2021 og fraktflutningar minnkuðu um 8% frá fyrra ári. Það sem af er ári hafa fraktflutningar þó aukist um 4% og seldir blokktímar í leiguflugi eru álíka margir og á sama tímabili í fyrra.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Við erum á fleygiferð inn í sumarið og náðum því ánægjulega marki að fljúga yfir þúsund ferðir í millilandafluginu í maímánuði. Þá er einnig mjög jákvætt að sjá hlutfall tengifarþega halda áfram að aukast. Bókunarstaðan hjá okkur er mjög sterk og greinilega mikill ferðavilji til staðar.

Hins vegar, eins og fram hefur komið í fréttum, hafa krefjandi aðstæður á mörgum flugvöllum um þessar mundir valdið talsverðum röskunum á flugi um allan heim. Skýrist þetta fyrst og fremst af því að ekki hefur tekist að manna stöður á flugvöllum í takt við snarpa uppbyggingu flugs eftir faraldurinn. Truflanir sem þessar hafa keðjuverkandi áhrif en aukið umfang flugáætlunar okkar og mikil tíðni á lykiláfangastaði gerir okkur kleift að lágmarka áhrif á farþega eins og mögulegt er. Að koma okkar viðskiptavinum á sinn áfangastað sem allra fyrst, helst samdægurs er ávallt forgangsmál hjá okkur.“