Icelandair hefur ákveðið að auka við flug félagsins til Washington í Bandaríkjunum og næsta vetur verður flogið til borgarinnar fjórum til fimm sinnum í viku. Icelandair hóf flug til Washington árið 2011 og fram að þessu hefur hlé verið gert á fluginu yfir háveturinn, en nú er borgin orðinn heilsársstaður í leiðakerfi Icelandair.

Washington er þannig sjöundi staðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair flýgur til allt árið, en hinir eru Edmonton, Seattle, Denver, New York JFK, Toronto og Boston. Árið 2012 var aðeins flogið til þriggja borga í Norður-Ameríku allt árið.

„Stefna Icelandair er að jafna árstíðasveifluna í rekstrinum og byggja undir starfsemina á vetrarmánuðunum. Flugið til Washington hefur gefið góðan raun og við sjáum nú tækifæri til þess að bæta staðnum við heilsársleiðakerfið okkar,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdasstjóri Icelandair, í tilkynningu.

Icelandair flýgur á Dulles alþjóðaflugvöllinn í Washington, en um árabil flaug félagið til Baltimore flugvallarins skammt frá Washington. Því flugi var hætt árið 2006.

Þá hefur Icelandair hefur ákveðið að fljúga daglega til Amsterdam næsta vetur. Hingað til hefur verið flogið til og frá Amsterdam 6 sinnum í viku þegar minnst er í janúar- og febrúarmánuðum, en fer í 7 sinnum í viku næsta vetur.