Icelandair hefur gengið frá samningi til fimm ára við Oxford Aviation Training um flughermiþjálfun flugmanna félagsins fyrir Boeing 757 og Boeing 767 flugvélagerðirnar. Fyrirtækin hafa átt með sér samstarf undanfarinn áratug og hefur þjálfunin farið fram í London. Oxford Aviation Academy mun haustið 2010 taka í notkun nýjan flughermi á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn, og flyst þá þjálfun Icelandair þangað segir í tilkynningu frá félaginu.

Flughermar eru notaðir til reglubundinnar endurþjálfunar starfandi flugmanna á sex mánaða fresti og til þjálfunar nýrra flugmanna. Um er að ræða nákvæma eftirlíkingu af stjórnklefa Boeing 757/767 flugvéla eins og Icelandair notar í sínum flugrekstri. Flughermirinn líkir eftir flugi þotunnar, og hægt að kalla fram margskonar bilanir og veðurskilyrði. Hann er með mjög fullkomnum myndbúnaði sem líkir eftir útsýni úr flugstjórnarklefa og er á tjökkum sem hreyfa hann og skapa þá tilfinningu hjá flugmönnum að þeir séu að fljúga við raunverulegar aðstæður.

Oxford Aviation Academy er ein stærsta flugþjálfunarstofnun í heiminum og rekur 49 flugherma í fjölmörgum löndum.