Icelandair hefur samið við hótelbókunarfyrirtækið HRS, Hotel Reservation Service, um samstarf á sviði hótelbókana á vefsíðum Icelandair.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en HRS starfrækir rafrænt hótelbókunarkerfi sem er eitt hið stærsta í heimi og býður upp á rúmlega 250 þúsund hótel í 180 löndum.

„Einfaldur, hagkvæmur og öruggur aðgangur að öllum helstu hótelum í heiminum skiptir marga viðskiptavini Icelandair miklu máli og við fögnum þessum áfanga", segir Guðmundur Óskarsson, forstöðumaður markaðs- og viðskiptaþróunar Icelandair í tilkynningunni.

„HRS ábyrgist að viðskiptavinir okkar fá alltaf besta verðið sem í boði er og endurgreiðir mismun ef viðskiptavinir finna hagstæðara verð fyrir sömu pöntun annars staðar."

Í tilkynningunni segir að bókunarsíðan sé mjög aðgengileg og auðveld notkunar og bjóði upp á umsagnir ferðamanna, samanburð, myndir ofl. Ekkert bókunargjald sé tekið og engin fyrirframgreiðsla, þ.e. gestir greiða við komu á hótel.