Icelandair tilkynnir í dag Krít á Grikklandi sem nýjan áfangastað í leiðakerfi sínu. Flogið verður einu sinni í viku, á föstudögum, frá Keflavíkurflugvelli til Chania flugvallar á Krít. Fyrsta flug er 26. maí 2023 og flogið verður út september.

Icelandair hefur áður flogið í leiguflugi til Krítar en nú er í fyrsta sinn boðið upp á áætlunarflug þangað. Flugið er um 5 klukkustundir og 45 mínútur.

„Krít er Íslendingum kunnur áfangastaður og þangað er margt að sækja, hvort sem er miðjarðarhafsstrendur, náttúra, saga eða grísk matargerð. Það er mjög spennandi að bæta Krít inn í alþjóðlega leiðakerfið okkar sem nær nú til 47 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Eftir samþættingu Icelandair og ferðaskrifstofunnar Vita hafa skapast spennandi tækifæri eins og þessi til þess að efla leiðakerfið okkar og auka þjónustuna við viðskiptavini.“

Meðal annarra nýrra áfangastaða í sumaráætlun Icelandair eru Tel Aviv, Barcelona, Prag og Detroit. Þá ákvað Icelandair að lengja flugatímabilið til Rómar og Nice í sumar.