Í Icesave-frumvarpi fjármálaráðherra, sem nú er til umræðu á Alþingi, segir að umfang fjárhagslegrar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda gagnvart þeim bresku og hollensku sé óvissu háð og ráðist af nokkrum meginþáttum. Auk hreyfingar á gengi krónunnar eru innheimtur af eigum Landsbankans og tímasetning greiðslna úr þrotabúi bankans taldir helstu áhættuþættir.

Við mat á gjaldeyrisáhættu vegna Icesave er stuðst við reikniforsendur Seðlabanka Íslands um þróun evrunnar. Gert er ráð fyrir að aðrir gjaldmiðlar þróist samhliða henni en ekki er sagt hver spá Seðlabankans er um gengi evru til ársins 2016.

Segir að árleg veiking krónunnar um 3% umfram þá breytingu sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir á árunum 2011-2016  myndu hækka skuldbindingar ríkissjóðs vegna Icesave um 18%. Í krónum talið hækkar skuldbindingin í 56 milljarða króna úr 47 milljörðum króna. Eins myndu árleg styrking krónunnar um 3% umfram spá Seðlabankans lækka skuldbindinguna um 15%, úr 47 milljörðum króna í 40 milljarða króna.

Ennfremur segir að hægt sé að draga verulega úr gjaldeyrisáhættu, sem er einkum vegna gjaldmiðlasasetningar eigna þrotabús Landsbankans og skulda tryggingasjóðs. Tryggingasjóður ætlar sér að takmarka þessa áhættu, að því er segir í frumvarpinu. „Kostnaður vegna gjaldeyrisvarna ræðst af aðstæðum á markaði hverju sinni og einnig af því hve stórum hluta af gjaldeyrisáhættunni er eytt. Ekki er þó mögulegt að eyða gjaldeyrisáhættunni að fullu vegna óvissu um endanlegar endurheimtur og tímasetningu þeirra.“