Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist sammála Ögmundi Jónassyni um að ef gera eigi breytingar á Icesave-ríkisábyrgðinni þurfi að vinna þær breytingar í þinginu. Þær þurfi með öðrum orðum að fara í lýðræðislegt ferli.

Hún kveðst ekki geta gefið neitt út um það hvort hún styðji mögulegar breytingar á Icesave-ríkisábyrgðinni áður en hún sjái þær. „Til að geta gefið endanlega niðurstöðu þarf ég að hafa breytingarnar í höndunum," segir hún.

Þegar hún er spurð hvort hún væri tilbúin til að leggja blessun sína yfir breytingarnar áður en þær færu inn í þingið, eins og forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa lagt áherslu á, svarar hún: „Ég bauð mig ekki fram á Alþingi til að vera hluti af framkvæmdavaldinu eins og það var fyrir hrun. Ég fór inn á þing til að auka lýðræðið - sem felst í því að þingið hafi vægi í ákvarðanatöku."

Hún segir þetta ekki snúast um að tefja málið heldur sé mikilvægt að vanda vel til verka. Icesave sé stærsta skuldbindingin sem Ísland hafi tekið á sig. Hún segir þó jafnframt mikilvægt að sýna í verki að „við viljum standa við skuldbindingar okkar gagnvart Bretum og Hollendingum," eins og hún orðar það.

Skilur ekki asann á málinu

Lilja, sem stödd er á þingi Evrópuráðsins í Strasbourg, segist reyndar ekki vita til þess að búið sé að vinna nákvæmar breytingartillögur að Icesave-ríkisábyrgðinni, til að mæta kröfum Breta og Hollendinga. Því skilji hún ekki þann asa sem nú virðist vera á málinu.

Eins og kunnugt er samþykkti Alþingi í lok ágúst Icesave-ríkisábyrgðina með lagalegum og efnahagslegum fyrirvörum. Einnig setti þingið þau skilyrði fyrir ábyrgðinni að Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvarana.

Það hafa Bretar og Hollendingar ekki gert. Þeir hafa meðal annars gert athugasemdir við þann fyrirvara Alþingis að taka eigi upp viðræðu að nýju árið 2024 standi þá eitthvað eftir af láninu. Þá hafa þeir gert athugasemdir við svokallað Ragnars Hall ákvæði.

Icesave-frumvarpið var samþykkt með 34 atkvæðum Samfylkingar og Vinstri grænna gegn 14 atkvæðum Framsóknar, tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokks, tveggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar og Þráins Bertelssonar, þingmanns utan flokka.

Flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá, þar á meðal Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.