Flestir greinendur telja að framboð af áli muni minnka um 5-6% í ár. Það er mesti samdráttur frá árinu 1983 þegar framleiðsla dróst saman um 15%.

Þetta kemur fram í hálfsmánaðarlegu hrávöruyfirliti IFS Greiningar í dag en orkukostnaður hefur hækkað síðustu vikur sem letur framleiðslu á áli.

Þar kemur fram að álbirgðir eru enn miklar á heimsvísu en greinendur hjá Citigroup, RBS og Barclays gera samt sem áður ráð fyrir að verð muni hækka frekar á árinu 2009 þar sem framleiðsla hefur dregist saman og erlend hagkerfi virðast vera að taka við sér.

Álframleiðendurnir Alcoa og Rusal telja nú að dreifingaraðilar séu farnir að finna fyrir aukinni eftirspurn. Horfur fyrir næstu mánuði eru því heldur betri en verið hefur.