Þrátt fyrir að vöruskiptajöfnuður hafi verið ofmetin um 8 milljarða fyrstu sjö mánuði ársins svarar það ekki spurningunni af hverju krónan hefur veikst. Veiking krónunnar í sumar hlýtur að valda áhyggjum en fáar hald góðar vísbendingar hafa komið fram af hverju krónan hefur veikst.

Þetta kemur fram í viðbrögðum IFS Greiningar við nýjustu tölum að vöruskiptajöfnuði en samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands í morgun nam afgangur af vöruskiptum við útlönd 12,6 milljörðum í ágúst.

Þá hefur komið í ljós að að vöruskiptaafgangur fyrir janúar til júlí var ofreiknaður um 8 milljarða þar sem innflutningur á hrá- og rekstrarvörum var vantalinn.

IFS Greining segir að töluverður stígandi hafi verið í vöruskiptum síðustu mánuði. Afgangur af vöruskiptum hefur verið tæplega 9,4 milljarðar að meðaltali síðustu 3 mánuði eftir að hafa verið í lágmarki í mars er vöruskiptajöfnuður nam að meðaltali um 5 milljörðum.

Þá segir IFS Greining að vísbendingar séu um að í ágúst hafi verðmæti útfluttra sjávarafurða og iðnaðarvara verið meira en í júlí. Það ætti ekki að koma á óvart í ljósi hærra álverðs og góðs gangs í sölu sjávarafurða. Að lokum býst IFS við því að afgangur af vöruskiptum verði með ágætum næstu mánuði af þeim sökum.

„Útflæði vegna vaxtagjalda hefur verið lítið síðustu mánuði. Afgangur af vöruskipta- og þjónustujöfnuði hefur að meðaltali verið vel á annan tug milljarða í sumar og hefði krónan átt að styrkjast miðað við framangreindar upplýsingar,“ segir í viðbrögðum IFS.

„Þrátt fyrir að vöruskiptajöfnuður hafi verið ofmetin um 8 milljarða fyrstu sjö mánuði ársins svarar það ekki spurningunni af hverju krónan hefur veikst. Veiking krónunnar í sumar hlýtur að valda áhyggjum en fáar hald góðar vísbendingar hafa komið fram af hverju krónan hefur veikst.“