Icelandic Group hefur nýlega gengið frá kaupum á tveimur rekstrareikningum, Fiskval ehf. og Dalian Three Star Ltd. Fiskval er fiskvinnsla í Keflavík sem stofnuð var árið 1985. Icelandic Group gekk einnig nýlega frá kaupum á 97% eignarhlut í kínverska félaginu Dalian Three Star Ltd.

Á undanförnum árum hefur meginstarfsemi Fiskvals verið vinnsla ferskra kolaafurða inn á Bretlandsmarkað. Núverandi húsnæði félagsins var tekið í notkun árið 2001 en húsið var sérstaklega hannað með matvælavinnslu í huga og uppfyllir öll ströngustu skilyrði viðskiptavina félagsins. Félagið hefur unnið úr um 1.200 tonnum af hráefni á ári en áætluð velta félagsins fyrir árið 2006 er ríflega 400 milljónir króna. Með kaupunum á Fiskval er Icelandic Group að styrkja stöðu sína í virðiskeðju ferskra sjávarafurða. Jafnframt er þetta liður í því að efla enn frekar þjónustu við viðskiptavini og birgja félagsins.

Ingvar Eyfjörð er framkvæmdastjóri Fiskvals og mun hann gegna því starfi áfram. Ingvar er fæddur árið 1973 og útskrifaðist sem Sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri á árinu 1998. Árið 2004 var hann forstöðumaður saltfisksviðs SÍF á Íslandi. Árin 2002 ? 2004 var hann sölustjóri í smásölu hjá SÍF í Bretlandi. Hann starfaði sem sölustjóri hjá Tros ehf. á árinum 1998-2000 og árið 2001 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Tros. Ingvar er kvæntur Margréti Elísabeti Knútsdóttur ljósmóður og eiga þau einn son.

Kaupverð fyrirtækisins er trúnaðarmál en fjárfestingin hefur óveruleg áhrif á reikningsskil Icelandic Group fyrir árið 2005.

Icelandic Group gekk nýlega frá kaupum á 97% eignarhlut í kínverska félaginu Dalian Three Star Ltd. Félagið á fiskverksmiðju í Dalian þar sem fram fer vinnsla á afurðum sem aðallega eru seldar til annarra dótturfélaga Icelandic Group. Frá því á árinu 2002 hefur verksmiðjan eingöngu unnið í verktöku fyrir Icelandic Group, áður Sjóvík. Núverandi afkastageta verksmiðjunnar er 17 tonn af afurðum á dag. Frystigeymslur rúma 600 tonn og starfsmenn eru um 400. Stefnt er að því að stækka verksmiðjuna og jafnframt að auka sjálfvirkni hennar.

Með fjárfestingunni gefst Icelandic Group tækifæri til að efla enn frekar framleiðslustarfsemi sína í Kína og að auka tæknistig framleiðslunnar.

Kaupverð fyrirtækisins nam 2,7 milljónum Bandaríkjadollara.