Blackstone Group LP íhugar nú tilboð í þýska fasteignafélagið OfficeFirst. Þetta kemur fram á vef Bloomberg.

OfficeFirst er í eigu þýska fjárfestingarfélagsins IVG Immobilien AG, sem hefur verið að stefna á hlutafjárútboð. Samkvæmt upplýsingum Bloomberg nema eignir OfficeFirst allt að 3,2 milljörðum evra.

Hlutafjárútboðið sem IVG stefndi á, hefði átt að tryggja þeim 900 milljónir evra. Ef til þess kæmi að Blackstone myndi kaupa OfficeFirst, væri þó lítil ástæða til þess að ráðast í útboð.

OfficeFirst, er dótturfélag, sem myndar einhverskonar regnhlíf yfir öll skrifstofuhúsnæði IVG. Dietmar Binkowska, forstjóri IVG, hefur viljað selja félagið og réði því Goldman Sachs og Deutsche Bank í ráðgjafastörf.

Ein af verðmætustu eignum OfficeFirst er The Squaire, sem er skammt frá flugvellinum í Frankfurt.