Inga Birna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjá vefstofunni Kosmos & Kaos.

Inga Birna starfaði áður sem framkvæmdastjóri og aðstoðarforstjóri flugfélagsins WOW air og í stjórnunarstöðum hjá Icelandair, Flugfélagi Íslands og 365 miðlum. Hún hefur áralanga reynslu af rekstri, er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Inga Birna er einnig varamaður í stjórn Íslandsstofu og hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum síðastliðin ár.

„Þetta er spennandi tækifæri, ég hlakka mikið til að vinna með hæfileikaríku fólki hjá Kosmos & Kaos og taka á móti nýjum áskorunum í leiðinni. Rekstur Kosmos & Kaos hefur gengið mjög vel, tækifærin eru okkar og við ætlum að grípa þau,“ segir Inga Birna.

„Inga Birna hefur sem stjórnandi reglulega verið í hlutverki kaupanda á þjónustu vefhönnunarfyrirtækja og þekkir þarfirnar mjög vel. Inga Birna hefur líka gríðarlega reynslu af rekstri og uppbyggingu fyrirtækja. Þetta er rétti tíminn til að láta manneskju með mikla rekstrarreynslu fá framkvæmdastjórahattinn,“ segir Kristján Gunnarsson, einn stofnenda og viðskiptastjóri Kosmos & Kaos.