„Það er ekki flugufótur fyrir þessu,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, þegar hún er spurð út í þau ummæli Roberts Wade, prófessors við London School of Economics, að sterkur orðrómur sé um það á Íslandi að Samfylkingin muni slíta samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn og knýja fram kosningar.

„Engin slík umræða á sér stað innan Samfylkingarinnar,“ segir Ingibjörg Sólrún „enda skil ég ekki hvernig nokkrum manni detti í hug að við viljum fara í ríkisstjórn um að segja okkur frá EES-samningnum. Þetta er því úr lausu lofti gripið.“

Hún vísar þarna til þeirra orða Ögmundar Jónassonar, þingflokksformanns VG, að Ísland ætti að endurskoða aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu.

Kannast ágætlega við Wade

Ingibjörg kveðst aðspurð kannast ágætlega við Wade og að hún hafi margoft  hitt hann. Hún hitti hann þó ekki er hann var hér síðast í byrjun júní til að halda erindi á málstofu hagfræðideildar Háskóla Íslands um eðli fjármálakreppu.

Ingibjörg segist aðspurð ekki hafa hugmynd um hvaðan hann hafi sínar fullyrðingar. Þær komi þó ekki frá forystumönnum Samfylkingarinnar. Hún bendir hins vegar á að auðvitað séu alltaf einhverjar raddir um þessi mál á bloggsíðum.

Þegar hún er spurð hvernig stjórnarsamstarfið gangi svarar hún: „Það gengur mjög vel. Auðvitað erum við að takast á við erfið mál en það skiptir miklu að gott samstarf sé í ríkisstjórninni við slíkar aðstæður.“