Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að kröfur Breta vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi séu meiri en stjórnvöld treysti sér til að binda þjóðina við.

Hún segir enn fremur að ágreiningur sé uppi um lagatúlkun á málinu.

Þetta kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar á blaðamannafundi í Ráðhúsinu fyrir stundu.

„Það er ágreiningur sem við tökumst á um núna og hvort okkar túlkun stenst eða þeirra," sagði hún aðspurð um Icesave-málið.

Sendinefnd Breta farin heim

Sendinefnd breskra stjórnvalda fundaði í Reykjavík í vikunni með fulltrúum íslenskra stjórnvalda vegna Icesave-málsins. Engin niðurstaða fékkst í þær viðræður og hefur breska sendinefndin haldið heim á leið.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur hins vegar fram að viðræðum verði haldið áfram síðar.