Í bréfi sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, sendi Bretum hinn 23. október sl., sagði að mögulegar heildarskuldbindingar Íslands, ef allt færi á versta veg, kynnu að hafa sambærileg áhrif og Versalasamnningarnir á sínum tíma.

Ingibjörg Sólrún kvartaði einnig yfir beitingu hryðjuverkalaganna og sagði ekkert vit í því að setja íslenskt fyrirtæki á lista við hlið Al-Kaída og Talibana á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

Þetta kemur fram í frétt Telegraph þar sem segir að samskipti Breta og Íslendinga hafi verið enn stirðari en fram kom opinberlega eftir að eigur Landsbankans voru frystar „til öryggis ef til þess kæmi að Ísland neitaði að bæta sparendum innstæður sínar“.

Árni fékk ekki svar frá Darling

Í fréttinni segir að tvær frekari bréfasendingar hafi farið frá Árna M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, til Alistair Darling kollega síns í desember og janúar, en engin svör hafi borist. Háttsettur embættismaður í fjármálaráðuneytinu í Bretlandi, Clive Maxwell, hafi loks sent 12 blaðsíðna svarbréf um miðjan febrúar þar sem fram hafi komið að Bretar neiti að aflétta frystingunni þar til samið hafi verið um bætur.

Maxwell sagði áform Íslands vera óljós og mótsagnakennd og sagði einnig að of miklar eignir hefðu verið fluttar yfir í Nýja Landsbankann. Með þessu væru of litlar eignir eftir fyrir kröfuhafa, svo sem bresk góðgerðarfélög og sveitarfélög.