Margir þingmenn Evrópuþingsins stormuðu í gær út úr þingsölum í mótmælaskyni á meðan Vaclav Klaus, forseta Tékklands sem nú fer með forsæti í Evrópusambandinu (ESB) en Klaus sagði í ræðu sinni að Evrópusambandið þjáðist af lýðræðishalla og sagði starfssemi sambandsins að mörgu leyti minna sig á A-Evrópu á dögum kommúnismans.

Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Financial Times en í sinni fyrstu ræðu á Evrópuþinginu, síðan Tékkland tók við forsæti ESB um síðustu áramót, sagði Klaus að stofnunin [ESB] virti kjósendur sína að vettugi og í raun væri engin mótstaða við ákvarðanir sambandsins.

Þá sagði hann jafnframt að sambandið ætti að vinna í því að koma ákvörðunarvaldinu í auknum mæli frá Brussel og til aðildarríkjanna.

Að sögn Financial Times sáust þingmenn sambandsins fórna hönum og storma út.

En Klaus gerði fleiri aðila í Brussel reiða þegar hann neitaði að gefa upp hvort hann myndi skrifa undir og samþykkja Lissabon sáttmálann, en í honum felst í stuttu máli frekari Evrópusamruni og aukið vald Evrópuþingsins.

„Líkt í skák þá gefur maður ekki upp næsta leik,“ sagði Klaus við fjölmiðla aðspurður um sáttmálann en Tékklandsþing samþykkti í vikunni sáttmálann sem bíður nú undirskriftar forsetans, Vaclav Klaus.

Þá munu Írar kjósa aftur um sáttmálann á þessu ári en þeir höfnuðu honum í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári. Klaus hefur til að mynda verið mjög gagnrýninn á aðra þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi og segir að fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan sé fullgild.

Klaus er þekktur andstæðingur frekari vaxtar ESB en þetta er í fyrsta skipti sem Tékkar fara með forsæti í sambandinu. Síðan Tékkar tóku við forsæti um áramót hafa fjölmiðlar og stjórnmálamenn, aðallega frá Frakklandi, látið spurningarnar dynja á Klaus um það hvernig hann ætli að beita sér til að losa ríki sambandsins út úr þeirri efnahagskrísu sem nú ríkir.

Eftir að Klaus hafði lokið ræðu sinni tóku nokkrir þingmenn til máls. Margir þeirra lýstu yfir hneykslan sinni á ræðunni, sögðu hana valda vonbrigðum, vera vandræðalega fyrir þingið og aðrir sögðu hana kjánalega og jafnvel leiðinlega.

Klaus virtist þó ekki taka það nærri sér og sagði við fjölmiðla eftir á hann hefði notið þess að flytja ræðuna. Þá sagði hann að það versta sem ræðuflytjandi upplifir sé algjör þögn og engin viðbrögð.