Innflutningur á dagblaðapappír hrapaði niður um tæp ellefu þúsund tonn milli áranna 2006 og 2009. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru flutt inn 18.097 tonn af dagblaðapappír árið 2006. Árið 2007 voru flutt inn 14.006 tonn, en innflutningurinn hrapaði niður í 8.109 tonn á árinu 2008. Þá var innflutningurinn 2009 kominn niður í 7.422 tonn.

Var þetta minnsti innflutningur á dagblaðapappír síðan 2002 þegar flutt voru inn 7.263 tonn eftir samdrátt frá árunum þar á undan. Var innflutningurinn í fyrra því ekki nema ríflega þriðjungur þess þegar best lét.

Gríðarlegur samdráttur á innflutningi dagblaðapappírs á undanförnum tveim árum gefur sterkar vísbendingar um hvað hefur verið að gerast á auglýsingamarkaði.