*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 29. maí 2013 13:03

Innfluttar vörur hækka þrátt fyrir gengisstyrkingu

Greining Íslandsbanka segir hækkanir á innfluttum vörum og matvöru skjóta skökku við í ljósi styrkingar krónu.

Ritstjórn
Matvöruverslun.
Haraldur Guðjónsson

Ýmsar innfluttar vörur hafa jafnvel hækkað í verði frá miðjum febrúar fram í miðjan maí eða lækkað lítið í verði þótt krónan hafi styrkst um 7%-8% á þessum tíma, að því er kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

„Má þar nefna föt og skó, en sá liður er á heildina litið óbreyttur frá áramótum þrátt fyrir styrkinguna. Verð á fötum og skóm hækkaði raunar um 0,6% í maímánuði. Svipaða sögu má segja af liðum á borð við húsgögn og heimilisbúnað, og það sem í daglegu tali er kallað græjur, þ.e. tölvur, sjónvörp, hljómtæki og slíkt. Virðist því sem víða sé enn talsvert svigrúm til þess að miðla lækkun á innflutningsverði áfram út í smásöluverð á innfluttum vörum,“ segir í Morgunkorninu.

Þar segir einnig að athyglisvert sé að skoða matvörulið vísitölu neysluverðs. „Liðurinn stóð nánast í stað í maí, en þar vegast á ólík áhrif af innfluttum matvörum annars vegar, og innlendum hins vegar. Innfluttar mat- og drykkjarvörur lækkuðu þannig um 0,5% í maímánuði, þótt reyndar sé rétt að halda til haga að í þeim lið hefur styrking krónu frá febrúarmánuði enn ekki skilað sér að fullu. Ýmsar innlendar matvörur hækkuðu hins vegar verulega í verði í maímánuði. [...] Í heild hækkuðu búvörur án grænmetis um 0,8% í maí, og hafa þær frá áramótum hækkað um 2,8%. Erfitt er að átta sig á hvað skýrir þessa hækkun, sér í lagi þegar haft er í huga að innflutt aðföng í landbúnaði ættu að hafa lækkað í verði samfara styrkingu krónu.“

Á heildina litið hefur matvara hækkað í verði um 2,9% það sem af er ári, og segir í Morgunkorninu að það skjóti skökku við í ljósi styrkingar krónu og almennrar lækkunar á verði landbúnaðarvara erlendis.