Bandaríska tæknifyrirtækið Intel, hefur nú bæst í hóp þeirra fyrirtækja sem ætla sér að græða á sjálfkeyrandi bílum í framtíðinni.

Samkvæmt The New York Times, hyggst Intel gera það með yfirtöku á ísraelska fyrirtækinu Mobileye.

Kaupverð félagsins nemur samkvæmt heimildum New York Times ríflega 15,3 milljörðum dala og gefur kaupverðið til kynna hversu miklar væntingar eru bornar til bílamarkaðarins á næstu árum.

Mobileye var stofnað fyrir 18 árum og er skráð á markað í New York. Tekjur félagsins árið 2015 námu alls 241 milljónum dala.