Ísak Einar Rúnarsson hefur verið kjörinn nýr formaður stúdentaráðs. Hann tekur við af Maríu Rut Kristinsdóttur sem hefur gegnt embættinu síðastliðið ár. Ísak er oddviti Vöku sem vann sigur í kosningunum í febrúar en þar hlaut Vaka 19 sæti og Röskva 8.

Fram kemur í tilkynningu að Ísak er 22 ára Garðbæingur en undanfarin tvö ár hefur hann stundað nám við hagfræðideild Háskóla Íslands. Á síðasta ári sat Ísak í Stúdentaráði ásamt því að gegna formennsku í Vöku.

Í tilkynningu er haft eftir Ísak að hann telji þörf á að byggja upp stöðugra námslánakerfi sem er líkara norrænu kerfunum. „Ennfremur er nú kominn tími til þess að byggja upp í Háskóla Íslands eftir sex ára samfelldan niðurskurð. Þá er einnig mikilvægt að kennarar og starfsfólk skólans sé opið fyrir nýjungum og auknum fjölbreytileika í kennsluháttum og starfsemi,” segir hann.