Íslamska ríkið (daesh) er talið bera ábyrgð á hryðjuverkinu á alþjóðaflugvellinum í Istanbúl í gær. Létust 36 fórnarlömb og allt að 150 manns særðust þegar þrír menn byrjuðu að skjóta af handahófi á flugvallargesti og sprengdu að lokum sjálfan sig upp.

Þakið hrundi niður

Flestir sem létust voru tyrkneskir borgarar en einnig voru nokkrir erlendir borgarar meðal látinna. Ali Tekin, sem var í biðsalnum að bíða eftir farþega, sagði að þakið hefði hrunið niður eftir gríðarlega háværa sprengingu.

Þó samtökin Íslamska ríkið í írak og Sýrlandi, sem oftast er skammstafað ISIS á vesturlöndum, hafi ekki lýst yfir ábyrgð er árásin talin af tyrkneskum yfirvöldum frekar bera merki aðferðarfræði þeirra heldur en PKK, kúrdíska verkamannaflokksins.

Ráðast á mjúk skotmörk

Síðarnefndu samtökin ráðast venjulega á opinberar byggingar og fulltrúa tyrkneska ríkisins í baráttu sinni fyrir sálfstæðu ríki Kúrda í suðaustur Tyrklandi.

ISIS, sem kallað er stundum daesh upp á arabísku, hefur hvatt fylgismenn hugmyndafræði sinnar til að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, það er almenna borgara og önnur skotmörk sem ekki eru vel varin, svokölluð mjúk skotmörk.