Verðlag hækkaði um 0,2% á Íslandi í október frá fyrri mánuði samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs sem undanskilur þróun húsnæðisverðs, en á sama tíma hækkaði verðlag að jafnaði um 0,1% á evrusvæðinu, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Tólf mánaða verðbólga á sama mælikvarða mælist nú 5,8% hér á landi en var 6,1% í september. Ísland trónir því ekki lengur á toppnum í Evrópu hvað varðar verðbólgu á ársgrundvelli en hún mælist nú hærri í Ungverjalandi (6,3%),? segir greiningardeildin.

Dregur úr verðbólgu á evrusvæði

?Verðbólga síðustu tólf mánuði er hins vegar aðeins 1,6% á evrusvæðinu og hefur dregið nokkuð hratt úr verðbólguhraðanum þar á bæ á síðustu mánuðum, en í júlí mældist tólf mánaða verðbólga til að mynda 2,4%. Það sem er helst að hafa áhrif er lækkun eldsneytisverðs. Á evrusvæðinu er mest verðbólga í Grikklandi eða 3,3% en minnst í Lúxemborg eða 0,6%,? segir greiningardeildin.

Hún segir að tólf mánaða verðbólga í október hafi mælst 1,3% í Bandaríkjunum. ?Markaðsaðilar bjuggust við 0,3% lækkun frá fyrri mánuði en þess í stað lækkaði verðlag um 0,5%. Verðbólga hefur fallið hratt síðastliðnu mánuði, t.a.m. mældist tólf mánaða verðbólga 3,8% í ágúst, en október er annar mánuðurinn í röð sem verðlag lækkar milli mánaða. Helstu áhrifin eru lækkun eldsneytisverðs eins og fyrr segir,? segir greiningardeildin.