Íslenska fyrirtækið Dattaca Labs hefur hafið samstarf við breska tæknifyrirtækið Digi.me um þróun nýrra tæknilausna sem gefur almenningi kost á að halda utan um eigin persónuupplýsingar og miðla þeim á sínum eigin forsendum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Dattaca Labs er leiðandi fyrirtæki hér á landi þegar kemur að þróun nýrra lausna og þjónstu við aðila sem vinna með persónuuplýsingar, svo sem í heilbrigðistækni, fjármála- og fjarskiptaþjónustu auk þróunar í því sem kallað er IoT ( e. Internet of Things ) eða „internet hlutanna“. Meðal markmiða Dattaca Labs er að skapa verðmæti í samskiptum milli fólks og þjónustuveitenda. Er það meðal annars gert með því að greina gögn og umbreyta í upplýsingar sem geta bætt þjónustu, aukið skilvirkni í fyrirtækjum, dregið úr kostnaði og bætt lífsgæði fólks. Í starfi Dattaca Labs er lykilatriði að einstaklingar stjórni persónuuplýsingum sínum og veiti sjálfir leyfi til notkunar á þeim en með því skapist mikil tækifæri til verðmætasköpunar sem svo getur nýst öllu samfélaginu,“ segir í tilkynningunni.

„Við erum sannfærð um að Ísland geti orðið leiðandi í byltingunni sem fram undan er í þessari tækniþróun,“ segir fjárfestirinn og frumkvöðullinn Julian Ranger, stofnandi Digi.me. Tækni Digi.me þykir virka vel með nýrri löggjöf um persónuvernd þar sem hún miðar að því eigandi persónuupplýsinganna hafi sjálfur vald til að ákveða hvort upplýsingum um hann sé miðlað eða ekki.

„Við teljum þetta mikilvægt skref sem getur skapað mikinn ágóða og haft jákvæð áhrif fyrir einstaklinga, viðskipti og samfélagið,“ segir Freyr Ketilsson, framkvæmdastjóri Dattaca Labs. Hann segir að þegar fólk geti deilt áreiðanlegum upplýsingum skapist mikill fjöldi sóknarfæra við þróun nýrrar þjónustu og vara. „Við erum því mjög ánægð að geta stuðlað að þátttöku Íslands í þessari þróun. Þá teljum við að mikil tækifæri eru hér á landi fyrir frekara nýsköpunarstarf þegar kemur að meðhöndlun persónuupplýsinga.“