Stjórn bókakaupstefnunnar í Frankfurt (Frankfurter Buchmesse) hefur ákveðið að bjóða Íslandi að verða heiðursgestur á sýningunni sem haldin verður haustið 2011.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi í byrjun september í fyrra að sækjast eftir því að Ísland hlyti þennan sess. Ísland verður fyrst Norðurlanda til að skipa þennan sess í Frankfurt. Menntamálaráðherra, ásamt sendiherra Íslands í Þýskalandi og fleirum, sótti síðustu bókasýningu heim og átti þá viðræður við forstjóra og annað starfsfólk kaupstefnunnar.

Hefur þeim viðræðum verið fylgt eftir síðan og það hefur orðið til þess að Ísland varð fyrir valinu, en Finnar sóttust einnig eftir því að verða heiðursgestir sýningarinnar árið 2011.

Á síðustu bókastefnu í Frankfurt voru sýnendur alls 7450, þar af rösklega 4000 frá löndum utan Þýskalands. Alls voru þátttakendur frá 108 löndum. Sýningarhúsnæðið var alls 172 þúsund fermetrar, kynntir voru tæplega 400 þúsund nýir bókatitlar og um 280 þúsund gestir komu á kaupstefnuna.

Skipuð hefur verið verkefnisstjórn til að halda utan um þetta verkefni með fulltrúum frá Bókmenntasjóði, menntamálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti og verður Steingrímur Sigurgeirsson aðstoðarmaður menntamálaráðherra formaður hennar. Þá hefur verið samið við Halldór Guðmundsson um að taka að sér stjórn verkefnisins.