Stjórnvöld hér og í Japan hafa náð saman um víðtækt samstarf á milli Íslands og Japan á sviði jarðhitanýtingar.

Samningar þessa efnis verða undirritaðir í dag í tilefni af heimsókn japanskrar sendinefndar hingað en tilgangur hennar er að kynna sér nýtingu jarðhita. Þetta er fjölmennasta sendinefnd sem komið hefur til Íslands frá Japan í þessu skyni. Í henni eiga sæti fimm þingmenn úr stærstu stjórnmálaflokkum í japanska þinginu, auk fulltrúa japanska iðnaðaráðuneytisins, stofnana og fyrirtækja sem starfa innan jarðhitageirans eða hafa áform um jarðhitanýtingu í framtíðinni.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mun undirrita samninginn ásamt þingmannanefndinni í utanríkisráðuneytinu í dag.