Íslandsbanki hefur ákveðið að gera breytingar á útibúaneti sínu á höfuðborgarsvæðinu.

Afgreiðsla bankans í Kringlunni lokar 30. maí og verður breytt í sjálfsafgreiðslu í byrjun júní með nýjum og öflugum hraðbönkum sem gera viðskiptavinum sjálfum kleift að sinna helstu bankaviðskiptum.  Afgreiðslan heyrir í dag undir útibúið á Kirkjusandi hafa breytingarnar því engin áhrif á  á reiknings- né bankanúmer viðskiptavina.

Þá stefnir Íslandsbanki að því að sameina útibú bankans í Lækjargötu og Eiðistorgi í eitt útibú í vesturbæ Reykjavíkur í byrjun næsta árs.

Markmið sameiningarinnar er að bjóða upp á öfluga fjármálamiðstöð í vesturhluta borgarinnar fyrir fyrirtæki og einstaklinga þar sem áhersla verður lögð á ítarlegri fjármálaráðgjöf. Í sameinuðu útibúi verður saman kominn hópur reynslumikilla starfsmanna en útibússtjóri hins nýja sameinaða útibús verður Hannes Guðmundsson, útibússtjóri Lækjargötu.

„Þessar breytingar endurspegla þá stefnu okkar að auka hagkvæmni og um leið efla þjónustu. Sjálfsafgreiðsla er í auknum mæli orðin  sú þjónustuleið sem viðskiptavinir kjósa þegar kemur að einföldustu færsluaðgerðum og því höfum við ákveðið að breyta afgreiðsluþjónustunni í Kringlunni í sjálfsafgreiðslu,“ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka, í tilkynningu.