Viðskiptavinum með erlend húsnæðislán býðst að greiða fasta krónutölu miðað við upphaflegan höfuðstól. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Íslandsbanki hefur sent frá sér. Í fréttatilkynningunni segir að Samtök Fjármálafyrirtækja beindu því í dag til aðildarfélaga sinna að innheimta einungis fasta greiðslu af þeim erlendu íbúðalánum sem óvissa ríkir um hvort falli undir dóm hæstaréttar frá 16. júní síðastliðinn. Þar til niðurstaða fæst fyrir dómstólum mun Íslandsbanki fara að þessum tilmælum og bjóða einstaklingum í viðskiptum við bankann sem eru með húsnæðislán í erlendum myntum og önnur erlend lán með veði í fasteign að greiða mánaðarlega einungis 5.000 kr. af hverri upphaflegri milljón lánsins. Greiðsla af láni með upphaflegum höfuðstól að upphæð 10 mkr. verður miðað við þetta kr. 50.000 á mánuði. Þessi leið er í samræmi við nýleg tilmæli frá Talsmanni neytenda. Íslandsbanki segir í fréttatilkynningunni að á meðan að óvissa ríkir um fyrrgreind íbúðalán í erlendum myntum mun Íslandsbanki stöðva tímabundið allar fullnustuaðgerðir vegna þeirra. Þá þakkar Íslandsbanki viðskiptavinum sínum fyrir sýnda þolinmæði undanfarna daga. Jafnframt þykir bankanum miður sú óvissa sem ríkt hefur og þau óþægindi sem málið í heild sinni hefur haft fyrir viðskiptavini.