Íslandsbanki hefur gefið út skuldabréf fyrir 100 milljónir evra til þriggja ára sem bera 2,875 prósent fasta vexti. Fjárhæðin nemur um 14,7 milljörðum króna og voru bréfin seld til fjárfesta í Skandinavíu og á meginlandi Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Deutsche Bank sá um sölu skuldabréfanna, en samhliða skuldabréfaútgáfunni hefur Íslandsbanki keypt til baka skuldabréf fyrir 47,7 milljónir evra af útgáfu frá árinu 2014. Stefnt er að skráningu skuldabréfanna í Kauphöllinni á Írlandi þann 27. júlí 2015.

Í tilkynningunni kemur fram að útgáfan sé gefin út undir Global Medium Term Notes (GMTN) útgáfuramma bankans.