Út er komið nýtt verðmat greiningardeildar Íslandsbanka á Burðarási. Niðurstaðan er 40,2 ma.kr. sem jafngildir verðmatsgenginu 9,6. Við mælum því með sölu á hlutabréfum Burðaráss. Rekstur Eimskips er metinn með sjóðstreymisgreiningu. Skráð hlutabréf í eigu Burðaráss eru metin á markaðsvirði. Verðmæti annarra eigna, svo sem óskráðra hlutabréfa, skuldabréfa og annarra krafna er áætlað segir greiningardeild Íslandsbanka.

Greiningardeildin telur að markaðsverð Burðaráss feli í sér væntingar um arðsemi af fjárfestingum og verkefnum sem Burðarás á eftir að ráðast í. Sérstaklega eru væntingar um að erlendar fjárfestingar félagsins verði arðsamar. Hefur þannig háttað síðustu misseri og er ekki líklegt að þessi skoðun markaðarins á verðlagningu Burðaráss breytist í náinni framtíð. Af þeirri ástæðu mælum við með því að fjárfestar markaðsvegi bréf Burðaráss í eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum.