Íslandsbanki hefur selt skuldabréf að virði 1,05 milljarður Bandaríkjadala (66,05 milljarðar íslenskra króna) í tveimur útboðum, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Andvirðið verður notað til endurfjármögnunar.

Deutsche Bank, bandaríski fjárfestingabankinn J.P. Morgan og japanski bankinn Nomura Securities sáu um sölu bréfanna til bandarískra fjárfesta. Í Morgunblaðinu í dag segir að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskur banki sækir fjármagn með þessu móti til Bandaríkjanna.

Fyrsti hluti útboðsins fellur á gjalddaga í október árið 2008 en síðari hlutinn í október árið 2010. Fyrri hlutinn var gefinn út að nafnvirði og vextirnir eru 16 punktar yfir þriggja mánaða LIBOR-vexti. LIBOR eru millibanka vextir í London. Seinni hlutinn var seldur undir pari á 99,57 og bera bréfin 4,75% vexti.

Útboðið fær einkunina A1 hjá lánshæfismatsfyrirtækinu Moody's Investors Service, sem er einnig lánshæfismat Íslandsbanka.